Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1041, 115. löggjafarþing 534. mál: Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins (ráðstöfun inngreiðslna).
Lög nr. 29 27. maí 1992.

Lög um viðauka við lög nr. 39 15. maí 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.


1. gr.

     Innstæðum á reikningum einstakra framleiðenda í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins 1. júní 1992 skal varið til greiðslu skulda þeirra eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum, sbr. þó 2. mgr.
     Af innstæðum á einstökum reikningum í deild fyrir óunnar botnfiskafurðir skulu 30% renna til lífeyrissjóða sjómanna eins og nánar er kveðið á um í 5. gr. laga þessara. Á sama hátt skulu renna til lífeyrissjóða sjómanna 32,5% af þeim hluta innstæðna á reikningum í deild fyrir unnar botnfiskafurðir sem myndast hafa vegna útflutnings afurða vinnsluskipa.

2. gr.

     Óskiptum innstæðum á sérstökum reikningum Verðjöfnunarsjóðs vegna saltfiskafurða og vegna humars, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, skal skipt niður á framleiðendur í hlutfalli við þann þátt sem inngreiðslur vegna afurða einstakra framleiðenda áttu í myndun innstæðnanna. Áður en til skiptingar kemur samkvæmt þessari málsgrein skal 34 m.kr. af reikningi vegna humars og 16 m.kr. af reikningi vegna saltfiskafurða ráðstafað til lífeyrissjóða sjómanna samkvæmt ákvæðum 5. gr. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um framkvæmd þessarar málsgreinar.
     Innstæður, sem skipt hefur verið skv. 1. mgr., skulu ganga til greiðslu skulda framleiðanda eftir sömu reglum og innstæður þær sem rætt er um í 1. mgr. 1. gr.
     Innstæður skv. 1. mgr., sem myndaðar hafa verið af félögum sem slitið hefur verið fyrir gildistöku laga þessara með öðrum hætti en sameiningu við önnur félög, skulu renna í óskiptan reikning Verðjöfnunarsjóðs. Sama á við hafi framleiðandi orðið gjaldþrota eftir að innstæða var mynduð eða ekki stundað framleiðslu sjávarafurða til útflutnings síðustu sex árin fyrir gildistöku laga þessara.

3. gr.

     Innstæðum framleiðanda skal varið til greiðslu eftirtalinna skulda þannig að skuldir í hverjum tölulið séu að fullu greiddar áður en kemur til greiðslu skulda í næsta tölulið:
  1. Afborgana og vaxta af veðskuldum viðkomandi framleiðanda sem hvíla á eignum er tengjast fiskveiðum og fiskvinnslu og gjaldfallnar eru við gildistöku laga þessara. Skuldir, sem tryggðar eru með veði í framleiðsluvörum framleiðanda, falla ekki undir þennan tölulið.
  2. Skattskulda framleiðanda við ríki og sveitarfélög sem gjaldfallnar eru við gildistöku laga þessara og vaxta af þeim.
  3. Annarra gjaldfallinna skulda framleiðanda er tengjast fiskveiðum og fiskvinnslu og vaxta af þeim.
  4. Afborgana og vaxta af skuldum sem um ræðir í 1. tölul. sem falla í gjalddaga fyrir lok ársins 1992.
  5. Lækkunar höfuðstóls skulda er um ræðir í 1. tölul. enda liggi fyrir samþykki skuldareiganda um greiðslu ógjaldfallins hluta höfuðstóls.

     Hrökkvi innstæða ekki fyrir greiðslu allra skulda í einhverjum þeirra flokka er falla undir 1.–4. tölul. skal henni ráðstafað til greiðslu þeirra í hlutfalli við fjárhæð gjaldfallinna krafna.

4. gr.

     Þeir framleiðendur, sem telja sig falla undir ákvæði þessara laga, skulu fyrir 1. júlí 1992 senda Verðjöfnunarsjóði yfirlit yfir gjaldfallnar afborganir og vexti, skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 3. gr., sundurliðuð eftir skuldategund og kröfuhöfum. Jafnframt skulu fylgja yfirlit yfir þær veðskuldir þar sem óskað er greiðslu á ógjaldföllnum höfuðstól skv. 4. og 5. tölul. 1. mgr. 3. gr.
     Verðjöfnunarsjóður skal sannreyna innsendar upplýsingar og inna greiðslur af hendi samkvæmt ákvæðum laga þessara.

5. gr.

     Greiðslur til lífeyrissjóða sjómanna skv. 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. skulu skiptast milli sjóðanna í hlutfalli við iðgjöld sjómanna á fiskiskipaflotanum til einstakra sjóða á árinu 1991.

6. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. laga nr. 39 15. maí 1990 skal ekki inna af hendi greiðslur til Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins vegna útflutnings frá gildistöku laga þessara til 31. desember 1992. Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. sömu laga skal ekki inna af hendi reglulegar greiðslur af verðjöfnunarreikningum sjóðsins vegna útflutnings á sama tímabili.

7. gr.

     Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 78 23. desember 1991, um viðauka við lög nr. 39 15. maí 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 1992.